22.1.2009 | 02:55
Lögreglumaður alvarlega slasaður, fullt af fólki með sviða í augum, hvar á þetta að enda....
...annarsstaðar en í botnlausri vitleysu ? Hvað halda menn að græðist á því að veitast að lögreglunni ?
Eru þessir einstaklingar sem eru að reyna að starta stríði við lögregluna, að hugsa málið til enda ?
Það þykir mér sorgleg niðurstaða á góðum ofbeldislausum degi, að hleypa öllu í bál og brand. Og við það hjálpuðust nokkrir ofbeldisseggir úr röðum mótmælenda og ofbeldisseggir úr röðum lögreglunnar, alltaf skulu þessir fáu eyðileggja allt fyrir fjöldanum. Fram eftir degi og til kvölds gekk allt bærilega, jafnvel eftir að tilkynnt var um orð Geirs, að ekki yrði kosið í vor. Enginn byrjaði að kveikja í bílum, enginn gekk berserksgang á Laugaveginum, enginn reyndi að brjóta lögregluna á bak aftur.
Í dag var jarðarför í Dómkirkjunni, og mótmælin voru þögul á meðan, þetta er sú tegund samstöðu sem virkar...
...í kvöld við Þjóðleikhúsið, var lögreglan á staðnum, en hélt sig til hlés, og fékk frið fyrir vikið...og enginn reyndi að skemma Þjóðleikhúsið, enginn notaði tækifærið...þetta er sú tegund löggæslu sem virkar...passív nærvera...aggressif nærvera skapar óróa og ..ofbeldi.
Þetta er dapurlegur endir á góðum degi.
En þessi dagur ætti að vera sem flestum umræðuefni, og umhugsunarefni. Hverskonar samfélag ætlum við að byggja ? Ætlum við að byggja á ótta og ofbeldi eða ætlum við að byggja á samstöðunni.
Ég vil biðja lögreglumenn að halda ekki að allir séu tilbúnir að grýta þá, flest okkar vitum sem er að þið eruð að vinna vinnuna ykkar, og gerið eins og ykkur er sagt, þið eruð líka almenningur og það er verið að misnota ykkur.
Sorglegast af öllu er þó að huglaus stjórnvöld okkar, stilla lögreglunni upp sem andliti spillingarinnar, misnota lögregluna í þágu eigin hroka og hugleysis, og ofbeldisfulla einstaklinga sem leitast við að slasa lögregluþjóna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:49 | Facebook
Athugasemdir
Langar bara að hrósa þeim mótmælendum sem standa í milli lögreglu og óróasegga sem human shield fyrir lögguna.
Auðvitað á ekki að grýta lögregluna almennt. En ef fólk finnur til óstjórnlegrar þarfar þá eru banvænir hlutir ekki eitthvað sem grípa skal til. Vonandi náðust myndir af þeim sem voru að ógna lífi lögregluþjóna. Og vonandi náðust myndir af misbeitingu valds lögreglu.
Ofbeldið verður að hætta en háfaðinn má hækka.
Vilberg Helgason, 22.1.2009 kl. 03:02
Ég eyddi gærdeginum í einmitt það, svo ég þakka fyrir. Það gerði ég þrátt fyrir að lögreglumaður berði mig í tvígang í andlitið með skildinum sínum, þegar þeir ruddust inn á svæðið....
Það er ekki við lögregluþjónana að sakast, þeir bera ekki sök á efnahagshruninu, og þeir tóku ekki ákvörðunina um notkun táragass, sama er hægt að segja um mig, að ég var ekki að beita lögregluna ofbeldi, en fékk samt að kenna rækilega á því bæði með skildi og táragasi.
Beinum reiðinni þangað sem hún á heima, þetta er vítahringur sem þarf að rjúfa áður en fleiri slasast.
Þakka þér aftur Vilberg, lifi byltingin!
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 03:09
Nákvæmlega Halli.
Georg P Sveinbjörnsson, 22.1.2009 kl. 03:36
Sameining, ekki sundrung!
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 03:47
Vona bara að það sem hefur áunnist síðustu tvo sólarhringa sé ekki glatað, þessi ósköp eru bara vatn á myllu ræningjana og skósveina þeirra.
Georg P Sveinbjörnsson, 22.1.2009 kl. 03:57
Sammála, þetta er skandall.
Tilburðir stjórnarandstöðunnar til að smjaðra fyrir þjóðinni eru skandall.
Hugleysi þessa fólks sem stillir lögreglunni upp sem grímu, og barmar sér svo undan afleiðingunum, er skandall.
Fríspilið sem bankaræningjarnir fengu hjá gerspilltum pólitíkusum, er skandall.
Ofbeldið sem bæði lögreglan og mótmælendur hafa gert sig seka um er skandall.
Sú staðreynd að BB er að fá allt sem hann þarf til að beita þeirri hörku sem hann vill, er skandall.
Sú staðreynd að ríkisstarfsmenn eru notaðir sem kúgunartæki á almenning er skandall.
Að fólk liggi slasað eftir þetta alltsaman, er skandall.
Sú staðreynd að stjórnvöldum er að takast að kljúfa almenning í andstæðar, stríðandi fylkingar, er skandall.
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 04:12
Ef þjóðin stormar öl út hættir ofbeldið á báða bóga. Fyrr ekki, því miður
Kristján Logason, 22.1.2009 kl. 04:28
Það er líklega rétt, öll sem ein, eitt sem öll.
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 04:31
Eins og þú veist, Halli minn, er ég mikill friðarsinni. Og þrátt fyrir fjarlægð, hef ég ágæta heildarsýn á þessum málum. Þekki marga, beggja vegna línunnar (þú velur bara línuna sjálfur) og fæ fréttir fljótlega eftir að atburðir eiga sér stað.
Ég get vissulega skilið reiði margra þeirra sem veittust að lögreglunni í gær, þótt svo ég sé alls ekki að samþykkja slíka aðför á nokkurn máta. Lögreglan er ekki samansafn engla og auðnuleysingja; þar má finna menn sem misnotað hafa vald sitt, kúgað og kjammsað á ungu fólki, svo jafnvel á sá. Og slíkt hefur viðgengist í mörg mörg ár. Hversu mörgum hefur ekki verið kippt upp í lögreglubíl, keyrðir upp á plan nærri Laugardalnum, tuskaðir til og skildir eftir? Hversu margir hafa ekki fengið að finna fyrir vanmætti sínum, þegar laganna verðir hafa strípað þá réttindum - jafnvel fötum - og hent þeim svo út á ný? Hversu margir hafa ekki að óþörfu upplifað mannréttindabrot af hendi þeirra sem gæta eiga slíkra laga?
Eins og ég segi hvar sem ég kem, þá styð ég ekki slíkt ofbeldi gagnvart neinum. Hvort sem það er lögreglan sem beitir efnavopnum og kylfuhöggum á mótmælendur, eða grjótkastara sem svara á móti. En ég skil vel reiði þeirra sem beina henni helst að lögreglunni. Hún er ekki eins saklaus og menn vilja trúa. Það vitum við báðir, Halli. Er það ekki?
Skorrdal (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 07:44
Það ber að fordæma allt ofbeldi. Hver sem í hlut á. Mér þykir í meira lagi hæpið að nota táragas á fólk. Hvað þá kasta gangstéttarhellum sem geta drepið..........
Hólmdís Hjartardóttir, 22.1.2009 kl. 09:39
Lögreglan æsti fólkið. Hún ber í þessu tilfelli ábyrgð.
Halla Rut , 22.1.2009 kl. 12:12
Ríkisstjórnin er að gera lögregluna að stuðpúða fyrir sig og við megum ekki leyfa stjórnvöldum það. Með því að ráðast á lögregluna er verið að spila upp í hendurner á Geir og BB.....
...og ég sé ekki neitt annað en mistök í því.
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 13:06
Ef að athyglin fer að beinast frá stjórnmálaluðrunum yfir í lögregluna erum við komin í öngstræti. Það má ekki gerast. Svo er bara að sjá hvernig þessi dagur fer.
Ævar Rafn Kjartansson, 22.1.2009 kl. 13:27
Það er einmitt málið. Í þessu ofbeldisrugli nást aðeins fram markmið tveggja, þeas ríkisstjórnarinnar og ofbeldisseggjanna...
...og það er hreinlega heimskulegt að standa fyrir því!
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 13:47
Óli minn, það sem gekk á í nótt á ekkert skylt við mótmæli, nokkrir grunnhyggnir ofbeldisseggir voru helteknir af lágkúrulegri blekkingu stjórnvalda, og sáu spillinguna og ósvífni stjórnvalda undanfarna mánuði, holdgerast í lögreglunni...sorglegt...
...þetta þýðir að staðan er 1-0 fyrir Fýlu-Geir og Byssu-Björ.
Það eru líka grunnhyggnir ofbeldisseggir innan lögreglunnar og eins og þú veist vinur minn, þá verð ég manna síðastur að verja þá, en mig grunar nú að flestir lögreglumennirnir sem hafa verið á Austurvelli nýlega, vildu heldur standa með okkur (og sjálfum sér og sínum), í þessari baráttu okkar við spillt stjórnvöld.
Ég horfði margsinnis uppá að yfirmenn þeirra þurftu að reka þá áfram með hörðu, ég sá einn lögreglumann fara að gráta, og af viðbrögðum þeirra flestra við orðum mínum er ég talaði við þá ,voru þess eðlis að mér fannst alveg eins líklegt að þeir legðu niður skildina og sneru sér við.....
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 14:09
Hvað er „alvarlegt“ alvarlegt. Auðvitað ætti enginn lögreglumaður eða mótmælandi að þurfa leita læknis vegna mótmæla en ég hef horft uppá svo miklar rangfærslur, ýkjur og hreina lygi lögreglu og stjórnvalda og fjölmiðla þeirra um flest sem ég hef horft á með mínum eigin augum og myndað, að mér er ómögulegt að skila hve mikið slasaður „alvarlega slasaður“ lögreglumaður er að mati lögreglustjóra. Ég sá þegar mótmælendur slógu skjaldborg um alltof litla sveit lögreglumanna við stjórnarráðið sem átti í vök að verjast og ég sá þegar lögreglumaur fékk eitthvað þungt í höfuðið og virtist vankast, vé til hliðar og beygði sig sama - en ég sá aldrei að hann missti meðvitund eins fjarstaddur og lögreglustjórinn segir hann hafa gert, ég sá hann hinsvegar skipa sér aftur í raðir lögreglumanna um stund áður en hann svo fór afsíðis þegar þorri mótmælenda hafði tryggt öryggi hans og þeirra með því slá um þá mannlgrei skjaldborg og að setja sig í skotlínuna.
Helgi Jóhann Hauksson, 22.1.2009 kl. 15:47
Það hlýtur að kallast alvarlegt að ráðast að fólki með banvænum vopnum, hvort sem það er lögreglan eða aðrir.
Grjóthnullungar og kylfur og efnavopn og fljúgandi glerílát...þetta er komið út í vitleysu....en við megum ekki missa sjónar á því að það eru stjórnvöld sem eru óvinurinn en ekki lögreglan. Að mínu mati er verið að níðast mest á þeim við þessar aðstæður.
Ofbeldisseggir innan lögreglunnar er staðreynd, en það má ekki dæma þá alla samkvæmt því.
Við erum í stríði við stjórnvöld sem misnota lögregluna á ljótan hátt...
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 15:57
Well ég sá á vísi að fólk er að gefa lögreglunni blóm og kakó núna. Eins var hópur sem stóð og varði lögregluna. Þetta eru hetjur. Hvaða fífl sem er getur hagað sér eins og hálviti en það þarf hugrekki til að breyta til góðs.
Lögreglan er búinn að standa 20 tíma vaktir og þola áreiti sem flestir myndu brotna undan eftir nokkra tíma. Lögreglan er fólkið í landinu, þeir eru bara að vinna sína vinnu. Gott að sjá fólk er að sjá af sér.
Nanna Katrín Kristjánsdóttir, 22.1.2009 kl. 16:03
Við erum þjóðin, og við erum ein þjóð....minnumst þess líka að þjóðin okkar er eiginlega bara eitt lítitð þorp.
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 16:10
Ég veit, kæri vinur, að þú misskilur mig ekki. Og heldur ekki að þú haldir að ég sé að réttlæta þessa aðför að þjónum lýðræðisins. Ég er aðeins að reyna að koma fram þeirri skoðun minni, eftir margra ára rannsóknir og viðkynningu við þolendur, að hugsanlega sé kominn tími til uppgjörs. (http://skorrdal.is/horfin-von/)
Það hlaut að koma að því - mér finnst það ekkert ótrúlegt eða skrítið. Hugsanlega finnst mér það bara réttlátt, þótt svo það sé frekar ofbeldisfullt. En hefur lögreglan komið svo vel fram við ungviði samfélagsins síðustu ár? Finnst þér það virkilega?
Mér þykir vænt um þig - "gallagripurinn" þinn. ;)
Skorrdal (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 16:58
Lögreglan er ekkert samsafn engla, enda þannig vinnustaður að hætt er við að hann laði að sér rangt fólk. Hitt er að samfélagið okkar hefur tekið miklum og örum breytingum undanfarna tvo áratugi, þessar breytingar hafa verið mörgum erfiðar og ekki hefur alltaf tekist að færa samfélagið að tímanum, eins hefur sýnt sig t.d. hjá löggæslustofnunum.
Þetta getum við lagað, það er hinsvegar ofvaxið verkefni að ætla að laga það ef lögreglan verður notuð sem þrautalending í öllu. Það gerir ekkert nema illt. Ef gengið er útfrá því lögreglan eigi það skilið að ver beitt ofbeldi, þá er voðinn vís. Áhrifin sem það myndi hafa út í samfélagið eru ófyrirsjáanleg. Sama má segja um það ef stjórnvöld kjósa að nota lögregluvald til að viðhalda stjórn sinni, þá eu stjórnvöld að níðast á lögreglunni og þá verður hún smámsaman spillt, rotin og óstarfhæf til góðra verka.
Svo slæm er staðan ekki hér en hún getur auðveldlega orðið það.
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 17:21
Eins og þú veist, minn kæri vinur, þá er ég ekki að reyna að réttlæta neitt, aðeins varpa ljósi á ástand sem hefur varað gegnum árin. Og ég veit að þú veist það - við erum að minnsta kosti ekki að rífast um það. Og ég skil vel þína afstöðu, og hefði staðið með þér í varðstöðunni í gærkvöldi - ég vona að þú vitir það. EN ég skil einnig gremjuna hjá þeim er hafa fengið að finna fyrir ofríkinu og ofbeldinu gegnum árin; ég þekki svo vel sársauka þeirra.
Ég á góða vini innan lögreglunnar; þetta eru bara fólk eins og ég og þú. En þögn góðra manna yfir óréttlæti vinnufélaga sinna er jafn ósiðsamlegt og þögn yfir þauðgun eða öðru þvílíku ofbeldi, sem margir segja ekki frá í samfélagi okkar. Mínir dómar eru vissulega harðir - ég geri ekki greinarmun á sérsveit eða almennir lögreglu, því þeir sem þegja yfir óréttlæti eru allir undir sömu sökina seldir, í mínum huga.
Auðvitað eru þeir flestir í sömu stöðu og við hin, ég geri mér fulla grein fyrir því. Engu að síður þá eru þeir okkar þjónar, en ekki varðliðar valdaræningja - en nota hins vegar ekki sjálfstæða hugsun og frjálsan vilja til að taka afstöðu með fólkinu, heldur gegn því vegna skipanna. Og hvernig eigum við að bera virðingu fyrir fólki sem tekur afstöðu gegn eigin þjóð, vegna þess að yfirmaður þeirra segir þeim að gera svo? Voru hermenn Þjóðverja seinni heimsstyrjaldar saklausir fullkomlega, því þeir fóru bara eftir því sem þeim var sagt?
Frjáls vilji er ekki val í lýðræði - hann er mannréttindi. Alveg sama hvort þú ert lögreglu"maður" eða bara skurðgrafari. Ef þeir fara að gráta vegna skipanna, hafa þeir fullkomlega val til þess að neita að hlýða og hætta störfum; slíkt val hafa allir aðrir starfsmenn samfélagsins. Það hef ég sjálfur þurft að gera, vegna sannfæringar minnar - og fallið með eigin sannfæringu. Lögreglu"menn" eru ekkert öðruvísi, er það?
Þar sem ég dvel núna hefur lögreglan - og herinn - ákveðið 1986 að hætta að styðja stjórnvöld og þannig séð til þess að réttlæti nái fram að ganga. Því ætti það að vera öðruvísi á Íslandi, ef þeir þurfa að hlýða með tárin á hvörmum? Þetta er þeirra val, að standa gegn lýðræðinu - þeir kjósa að kúga almenning, ég sé það ekki öðruvísi.
Skorrdal (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 17:52
Það eru alltaf þeir einstaklingar sem vilja mestu lætin í röðum löggurnar og mótmælanda sem ráða því hvernig ástandið þróast og það er það sem skeði í nótt.
Oftast er besta ráðið þegar aðili er með læti að storka honum eða þeim ekki og láta sig hverfa. Af hverju dró löggan sig ekki í hlé þegar hún varð skotspónn? Ef hún hefði gert það og þessir einstaklingar endilega viljað fara í hana þá hefðu þeir elt hana og þá hefði verið mun auðveldara að eiga við þessi fífl án þess að aðrir væru að flækjast fyrir.
Það þarf ekki nema eina vanhugsaða aðgerð til að gera ástandið verra og löggan á að hafa meira vit á því að koma í veg fyrir læti en eitthvert fífl sem leitar uppi slagsmál.
Hannes, 22.1.2009 kl. 19:00
Rétt Hannes, og vonandi að það verði dreginn einhver lærdómur af gærkvöldinu..
Haraldur Davíðsson, 22.1.2009 kl. 19:03
Við skulum vona það að löggan læri af þessu. Ég held að það sé lang best að löggan dragi sig í hlé og láti þessa menn elta sig og að þeir sem vilja ekki ofbeldi komi ekki nálagt þegar þessi svín kasta grjóti í lögguna og leyfi henni að taka á þeim.
Ég mæli frekar með að því að þessu drasli sé kastað í ráðherrana eða þá sem bera ábyrgð því að það fólk á þessa steina og drasl skilið ekki löggan sem er saklaus með nokkrum undantekningum sennilega.
Hannes, 22.1.2009 kl. 19:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.